Velkomin
Vertu velkomin(n) í forkeppni Netöryggiskeppni Íslands, Gagnaglímuna. Markmið Gagnaglímunnar er að efla áhuga á netöryggi á Íslandi auk þess að velja fulltrúa Íslands fyrir Netöryggiskeppni Evrópu. Ítarlegri upplýsingar um Gagnaglímuna má finna á nki.is.
Þeim þátttakendum, sem standa sig best í forkeppninni, verður boðið að taka þátt í landskeppni Gagnaglímunnar.
Fyrir hverja er keppnin?
Öllum er frjálst að taka þátt í forkeppninni! Þú getur skráð þig til þáttöku hér.
Athugið að aðeins þeim sem hafa þátttökurétt í ECSC verður boðið að taka þátt landskeppni Gagnaglímunnar. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í landskeppninni verða að taka fram kennitölu og nafn við skráningu, svo hægt sé að staðfesta aldur. Öðrum er frjálst að gera það, en þessar upplýsingar verða ekki birtar opinberlega.
Verkefnin
Verkefni keppninnar eru af ýmsum toga og öllum erfiðleikastigum, svo allir ættu að finna sér eitthvað við hæfi.
Í ár bryddum við upp á þeirri nýjung að vera með sérstakan verkefnaflokk miðaðan að byrjendum, the basics
, en þau verkefni gefa öll 100 stig.
Önnur verkefni gefa öll 500 stig í upphafi keppni, en stigafjöldinn breytist eftir því sem líður á keppnina á þann hátt að stigafjöldi þeirra dæma sem flestir hafa leyst lækkar jafnt og þétt. Þau dæmi sem gefa færri stig ættu því að reynast einfaldari, en það skal þó ekki taka því sem fullkomnu mati á erfiðleikastigi, sérstaklega á milli flokka, enda er erfitt að leggja mat á erfiðleikastig verkefna eftir frammistöðu annarra.
Af hverju er keppnin á ensku?
Allar keppnir Gagnaglímunnar eru haldnar á ensku og fyrir því eru margar ástæður. Ein helsta ástæðan er sú að upplýsingatækni, þ.m.t. netöryggi, er svið þar sem enska ræður ríkjum. Því er auðveldara að leita sér upplýsinga og aðstoðar ef efnið er sett fram á ensku. Þar að auki er Gagnaglíman forkeppni Íslands fyrir Netöryggiskeppni Evrópu, og sú keppni fer fram á ensku.